Ljóð og fleira mis alvarlegt

Fyrstu ljóðin sem ég skrifaði niður gerði ég 11/12 ára gömul og þau hafa komið í köflum, stundum með áralöngum hléum, stundum í skorpum eða nokkur saman í slumpum, stundum einkennandi fyrir lífsins gang hverju sinni, oft um fjölskylduna, stundum um samfélagið, gjarnan hæðin þó ég eigi til að halda þeim bara fyrir mig, nokkur eru söngtextar eða þýðingar, mörg eru bara til skemmtunar eða samin fyrir tiltekin tækifæri en öruggt að hér verða þau í belg og biðu. Ef ég finn eldri ljóðin set ég líklega inn undirsíðu með þeim en ég man eitt af mínum fyrstu og það var um frænda minn og leikfélaga Stefán Arnarson (fyrirgefðu elsku Stebbi minn)

Hann er eitthvað skyldur mér, því miður fyrir mig
og ef hann kemur nálægt þér þá skaltu vara þig
Því Stebbi frændi öllum kann að gera gramt í geði
og ég hef átt við drenginn þann í bísna miklu streði

Mig minnir reyndar að erindin hafi verið fleiri en hitt man ég að ljóðið varð til á bak við hús á Melum sennilega 1974-5 þegar afi og amma fóru hringveginn með Erlu og Ragga, og Imbu og Sigga og ég var í góðu yfirlæti hjá Boggu minni og Öna. Hér neðar eru myndir af mér og pjökkunum í Bragholti, Hadda og Stebba…

Arnar minn er góður ljósmyndari en ekki síðri í að teikna, bæði í tölvu og utan. Hann myndskreytti nokkur ljóðanna og ef hér birtast svarthvítar myndir eða aðrar í stíl við þá sem skreytir síðuhausinn þá á hann þær. Myndir í lit eru mínar nema annað sé tekið fram og dásemdar börnin hafa sent mér nýlegar myndir til að uppfæra upplýsingarnar ögn, takk elskurnar. Ég ákvað að gefa ekki möguleika á athugasemdum við ljóðin en lesandanum er velkomið að hafa samband beint ef eitthvað liggur honum á hjarta.. annaelisahreidars@gmail.com

Sumarið 2022

Sólin skín í heiði og blessað vorið komið nær
snjórinn bara óljós minning, gleymdur frá í gær
Veturinn var strembinn, vetrarveðrin stríð
virkilega tímabært að komi betri tíð

Síðan mætti sumarið og um tíma var allt fært
samvera með fólkinu sem er hjarta mínu kært
En veðurguðinn er úrillur og ekki kemur sólin
Ætli það verði betra veður þegar koma blessuð jólin

Rumska ég í morgunsárið rétt milli dags og nætur
Ráðavillt í húminu dríf ég mig á fætur
Kíki spennt á hitamælinn og sálartetrið kveinar
Kannski skilur eitthvert ykkar hvað veðurfarið meinar

Júní varð loks að júlí sem dró ágúst áfram í bandi
Jökulkuldi útivið og þjóðin flúin úr landi
Sumarblómin gugginn og sölnuð hengja haus
síðan tók yfir allan þjófabálk þegar á Reykjanesi gaus
(4. ágúst 2022)

Sagnaritarinn

Skrapar upp sárin, stráir í salti
skefur upp skítinn
Kafar í fortíð, kraflar í meinin
kroppar í börnin, metur þau einskis

Dregur fram dreggjar, dreifir á garðann
dálætið þiggur
Annarra sorgir, annarra sögur
afvegaleiðir, valdinu stelur

Samviskan svæfða, sundrar og meiðir
skeitir engu um örin
Brennir á báli, bata og sigra
bölvaður hrokinn og samviskuleysið

Börnin sem liðu, báru hönd yfir höfuð
biðu sér griðar
Sá er ofbeldið styður, sjálfur því beitir
Sá á að vita, svo mikið betur

Segir, ég ræð því, segir, ég á það
skeytir engu um tárin
Sér ekki lengra, skeytingarleysið
staðreyndir sumra eru annara lygi
(3. ágúst 2022)

Vikan framundan

Með hjartað í buxunum hugsa ég fram á veginn
huglaus og þorrinn allur máttur og megin
Vona það besta, veit ekki alveg hvað bíður
Vikna ef hugsa um tímann sem líður og líður

Herði upp hugann og bretti upp ermar og hugsa
Hel#%#% verkefnin koma og ekki má slugsa
Konan er með þetta, kann bæði getur og klárar
kann ekki tæknina við það að leggja upp árar

Hún gefst ekki upp, né guggnar á hverju sem dynur
Hún veit hvað hún syngur meðan síþreytta sáltetrið stynur
Hún kann þetta vel og klárar þau verk sem að bíða
Hvernig sem fer verða vikurnar fljótar að líða

Upphaflega gert fyrir Ölfu 27.5. 2022 þegar hún bað um heppilega stjörnuspá. Þá var seinni hluti af línu tvö í síðasta erindinu svona: (og Baldvin ræfillinn stynur)

Hví?

Syrgjandi
saknandi
spyrjandi
hví
Hvað veldur
hver heldur
er einhver
er eitthvað
sem stjórnar
sem ræður
hví

Nístandi
nöturleg
niðadimm
nótt
Mig lamar
mig lýjir
Þung hugraun
þín hryggð
hví

Huggandi
hughreisting
heilandi
von
Umlykjandi
umvefjandi
sefandi
styrkjandi
von

Kannski

Kannski mun ég flytja burt
eitthvert þangað sem að engu er spurt
Mögulega finn ég annan stað
einhverskonar hlutlaust millistig
þar sem ég get jafnað mig

Dregst í gegnum þennan dag
Munstra upp orku og tek enn einn slag
stari tómum augum fram á við
Leita dauðaleit að sjálfri mér
Er hún kannski ennþá hér

Má vera`að ég breyti til
Gleymi öllu um þetta tímabil
Kannski finn ég aftur tilganginn
Kemst hugsanlega í spjarirnar

jafnvel út um bakdyrnar

Textinn er undir áhrifum af laginu Hard candy christmas og sumt nett þýðing þó ekki sé hún trú enska textanum í heild eða kjarnanum þar sem gætir smá bjartsýni, kannski óskhyggju eða vissu. Ekki er heldur haldið í jólatenginguna í erlendu útgáfunni þó verði að segjast að hún er ein ástæðan fyrir að ég henti þessum línum á blað, skeitti engu um formlegheit né braghætti heldur lét bara vaða. Önnur ástæða er sú að svo skrítið sem það er þá er eins og sorg um jól sé enn átakanlegri en sorg á öðrum tímum, þ.e. fyrir þá sem utan standa. Hvað um það, ég ætlað að henda honum út í cosmóið, hugsa hlýlega til þeirra sem syrgja og og fá mér kaffi. Veri góð hvert við annað, umburðalynd og kærleikrík…

Lagið er eftir Carol Grisham Hall en enska textann eiga © Universal Music Corp., Otay Music Corp., Daniel Music Ltd. Engin skákar drottningunni Dolly Parton þegar kemur að því að flytja átakanlegan texta ekki einu sinni nær Cindy Lauper að komast með tærnar þar sem Dolly hefur hælana þegar kemur að flutningi þessa lags. P.s. íslensku útgáfunni er ekki ætlað að falla að laginu.

Í dag

Hér neðar má finna tvær útgáfur af sama texta, annar er fyrir Snúðinn minn og hinn er fyrir Rúnar Berg en báðir fyrir alla þá sem að þessum dásemdar börnum standa.

Í dag (Snúður)

Í dag, meðan sólin í skýjum sig felur
í sálinni þungi er Snúðurinn sefur
í dag vil ég gleyma og stimpla mig út
í dag mun ég kveðja sársauka og sút
í dag

Í dag vel ég daginn og gleðin er sæt
í dag lít ég til baka, ég gleðst og ég græt
Ærslin og fjörið, lífið og lætin
endalaus hamingja, gleðin og kætin
ég man

Og nú liggur hún þarna orkulaus, dofin
oftast með verki, ómótt, ósofin
Staulast um húsið, slitið hörundið marið
skelmislegt blikið í augunum farið
í dag

En þrátt fyrir allt hún er þarna ennþá
endalaust úthald og allt innanfrá
Ég fæ hana aftur ef ég held út um skeið
þá má ég gleyma því hvernig mér leið
í dag

(17. ágúst 2021 Anna Elísa)

Í dag (Rúnar Berg)

Í dag, meðan sólin í skýjum sig felur
í sálinni þungi er Rúnar Berg sefur
í dag vil ég gleyma og stimpla mig út
í dag mun ég kveðja sársauka og sút
í dag

Í dag vel ég daginn og gleðin er sæt
í dag lít ég til baka, ég gleðst og ég græt
Ærslin og fjörið, lífið og lætin
endalaus hamingja, gleðin og kætin
ég man

Og nú liggur hann þarna orkulaus, dofinn
oftast með verki, ómótt, ósofinn
Staulast um húsið, slitið hörundið marið
skelmislegt blikið í augunum farið
í dag

En þrátt fyrir allt hann er þarna ennþá
endalaust úthald og allt innanfrá
Ég fæ hann brátt aftur ef ég held út um skeið
þá má ég gleyma því hvernig mér leið
í dag

(17. ágúst 2021 Anna Elísa)

Í dag las ég færslu á facebook sem hitti mig beint í hjartastað því ég hefði svo vel getað skrifað hana sjálf og ég settist niður og skrifaði textann hér ofar. Hann er bæði um Snúðinn minn og elsku litla frænda Rúnar Berg. Bæði berjast þau hetjulega við krabbameinið hvítblæði og það er meira en tvöfalt sárt að fylgjast með þeim og fólkinu þeirra sem er fólkið mitt líka, og það er óneitanlega oft óbærilega sárt að horfa upp á sársauka, vanlíðan og endalaus pikk og pot á spítalanum, aðgerðir, svæfingar og aukaverkanirnar sem fylgja.

Færsluna á facebook sem ég vísa til skrifaði Hulda mamma Rúnars Bergs og við erum sammála um það hve mikilvægt það er að njóta barnanna sinna, njóta þess sem þau eru, þess sem einkennir þau og gerir þau þau. Einn dagur getur tekið það allt burt og skilið eftir skel, annað barn, öðruvísi en eins og Snúður segir, hún er enn hún og hún verður aldrei krabbameinið

Sjá: https://skrinid.wordpress.com/2021/07/10/eg-er-enntha-eg/

Það er samt auðvelt að gleyma því í öllu atinu og stundum er sorgin yfir því sem einu sinni var, óbærileg og sorgin vegna þess sem þau einu sinni gátu, því sem virtist svo sjálfsagt og ég held að stundum þurfum við sem að börnunum stöndum að leyfa okkur daga til að syrgja það sem var og átti að verða, leyfa okkur daga til að muna, til að gleðjast og ekki síst leyfa okkur daga til að líta fram á veginn og hlakka til þegar þau hressast þó þau verði ekki sömu börnin því reynsla af þessu tagi þroskar þau alltof fljótt og hefur óafmáanleg áhrif. Án efa verða þau bæði eitthvað frábært og dásamlegt og það er ekkert að fúlsa við.

Samt langar mig oft til að öskra og gráta, kvarta og kveina og ég ætla að leyfa mér það í takmörkuðu magni, í einrúmi því lífið er hrikalega ósanngjarnt og vont stundum. Mér þykir líka alltaf erfitt að vita hverju er best að svara þegar fólk spyr hvernig gengur því þó meðferðin gangi samkvæmt áætlun og Snúður svari lyfjunum vel þá er þetta allt annað en létt ganga, erfiðar lyfjagjafir, ótal svæfingar, eftirköst og endalausar pillur sem þarf að koma í litla kroppa sem eru svo oft hræðilega slappir. En ég ætla samt að leyfa mér að gleðjast og vera ánægð með það sem vel gengur, njóta góðu daganna, stundanna og augnablikanna og muna að þetta tekur enda. Hér er að lokum lítil saga af Snúðnum, nýkomnum af spitalanum. Amman spurði hana hvernig gekk og Snúður hnykklaði vöðvana, hallaði undir flatt og sagði “ Ég er hörkunagli!” ….eftir smá þögn og með skelmissvip bætti hún við …”en með lausa skrúfu, og svo hló hún innilega.”

Síðasta hálfa árið hefur verið mikil reynsla og þung en um leið hef ég upplifað óendanlega mikla góðvild og manngæsku og ég er orðlaus yfir góðsemi og kærleika fólks, jafnvel ókunnugra, orðlaus. Þúsund þúsund þakkir.

Líflegi, orkumikli, aldrei kyrr, hressi, dásamlegi Snúðurinn minn:

Titill ljóðsins er sóttur í söng eftir John Denver sem heitir Today en að öðru leyti ekki þýðing á þeim texta þó áhrifin séu sterk enda hefur Denver verið í miklu uppáhaldi allt mitt líf…

Ég er ennþá ég

Þegar ég sé
snúru í sambandi
afgreiðslu gangandi
í tölvunni
þá langar mig bara
að tosa í hana
það er ég

Ég er ekki krabbamein
Ég er ennþá ég
Snúður afa og ömmu
Einstaka mía mús
tatus og mömmu
Ég er bara ég

Hreyfing í blóðinu
iða í skinninu
eftir tónlist í minninu
svo glöð
verð bara að hreyfa mig
grínast og kæta þig
það er ég


Ég er ekki krabbamein
Ég er ennþá ég
Snúður afa og ömmu
Einstaka mía mús
tatus og mömmu
Ég er bara ég

Stundum vil ég
horfa í símanum
hangsa í ipadnum
vera ein
þögul og hæglát
hugsi og hljóðlát
það er ég

Ég er ekki krabbamein
Ég er ennþá ég
Snúður afa og ömmu
Einstaka mía mús
tatus og mömmu
Ég er bara ég

(AE og Snúður 10. júlí 21)

Heima er best

Heima er hjarta þitt hvar sem þú sefur
Heima, það besta sem að þú hefur
Heima er fólkið sem hjálpar, sem styður
heima er staðurinn þar sem þú biður 

Hvort sem þú gantast, hlærð eða grætur
heima þú sofnar og ferð þar á fætur
Aldrei og ekkert er jafngott og heima
Albesti staðurinn til þess að dreyma

Heima er best og þar ertu þú sjálfur
Hundraðfallt sannur, heill ekki hálfur
Þarft ekki að látast, þykjast né sýnast
Þar ertu meðtekinn, gallarnir týnast

Best allt í heiminum bíður þín heima
hvar sem þú ferðast um heima og geima
og þegar þú tekst á við það sem er verst
óttastu ekkert því að heima er best
AE 6. júlí 2021

Heima er best

Heimili byggt úr sprekum og mold
eða heimili mótað í snjó
Heimili háreist á fegurstu fold
eða heimili grafið í mó

Heimili á fjalli, á strönd eða í dal
heimili háreist og sterkt
Heimili í afskektum fjallasal
eða heimili mikið og merkt

Ókeypis heimili, dýrt eða falt
mikilfenglegra en flest
Hvar eða hvernig er ekki allt
því að alltaf er þitt heimili best
AE 6. júlí 2021

Systur mínar og ég

Stundum vildi að ég vera eins og Adda

sem skapar listaverk í efni og rými

Stundum óska ég þess að vera lík Kötu

dugnaðaforkur sem aldrei gefst upp

Það væri stundum gott að líkjast Hemmu

Ákveðin sem hún er og fylgin sér

Ég vildi gjarnan vera meiri Gudda

snillingu í eldhúsinu og á saumavélina

Oft vildi ég líkjast Mörtu

vera áreiðanleg og hugulsöm

Það væri ekki slæmt að líkjast Láru

mannelskri og hjálpsamri

Mig langar líka að vera eins og Hrabba

hrókur alls fagnaðar í hverju teiti

Ég vildi svo gjarnan hafa í mér smá Elínu

ljúfa glaðværð og glettni

Og ekki væri amarlegt að búa yfir

hugrekki Báru og báráttuvilja

En stundum velti ég fyrir mér

hvort það er ekki best að ég sé bara ég

(24.4.2021)

Minningar

Hugsa um þá sem ég á
Hugsa um þá sem mig langar að sjá
með hugann fullan af minningum
um allt sem að hefur hent

Takk fyrir þá sem ég hef
Takk fyrir þá sem að gengu sinn veg
með hugann fullan af minningum
og hver og ein þeirra, hver og ein þeirra` um þig

Þá ég minnist þeirra daga þegar lífið lék við mig
þegar trúði ég á hamingju, stöðugleika´og frið
Núna kelur sál og hjarta er ég heyri minnst á þig
því ég sé þig ekki aftur fyrr`en kallar dauðinn mig, nei

Sumir dagar taka á
Sumir fela tár á brá, jahá
þannig dagar líða hjá
láttu þá líða hjá, já

Hugsa um þá sem ég á
Hugsa um þá sem mig langar að sjá
með hugann fullan af minningum
um allt sem að hefur hent

Takk fyrir þá sem ég hef
Takk fyrir þá sem að gengu sinn veg
Með hugann fullan af minningum
og hver og ein þeirra, hver og ein þeirra`um þig

Doo doo, doo doo doo doo
Doo doo doo doo, doo doo doo doo
Doo doo doo doo, doo doo doo
og hver og ein þeirra, hver og ein þeirra`um þig

Sú var tíðin að mér þótti allt svo yfirþyrmandi
Mér fannst sem vonska heimsins væri yfirgnæfandi, ó já
Núna lýsir innri friður myrkrið sem að var svo svart
og ég veit það lýsir fyrir þig og það lýsir skært og bjart, já

Sumir dagar taka á
Sumir fela tár á brá, jahá
þannig dagar líða hjá
láttu þá líða hjá, já

Hugsa um þá sem ég á
Hugsa um þá sem mig langar að sjá
Með hugann fullan af minningum
um allt sem að hefur hent

Takk fyrir þá sem ég hef
Takk fyrir þá sem að gengu sinn veg
Með hugann fullan af minningum
og hver og ein þeirra, hver og ein þeirra`um þig

Doo doo, doo doo doo …
og hver og ein þeirra, hver og ein þeirra`um þig

Doo doo, doo doo doo …
og hver og ein þeirra, hver og ein þeirra`um þig

lalala…
og hver og ein þeirra, hver og ein þeirra`um þig

(AE 19. febrúar 2021)

Höfundar: Adam Levine / Jacob Hindlin / Jonathan Bellion / Jordan Johnson / Michael Pollack / Stefan Johnson / Vincent Ford