Þegar dagurinn heimleiðis drattast á kvöldin
dágóða stundu er rökkrið við völdin
Við heiðina hinkrar nóttin um stund
hljóðnar í huga og hæg verður lund
Það er einmitt þarna sem töfrarnir felast
þarna sem sögur og ævintýr gerast
Ég veit vel að þess er ei lengi að bíða
að snúðurinn skríði undir sængina mína
Á svæflinum spenntur snúðurinn iðar
og ferð okkar samstundis áleiðs miðar
Fúsar við ferðumst um sögunnar lönd
ferð yfir hafið, að fjarlægri strönd
Þar gerst undur og kraftverk mestu
enginn er minnstur og engin er bestur
Heimur og hallir sem eigum við tvær
horfinn á morgun er veröld frá í gær
Við þorum, við getum, við orkum, við gerum
Allt sem við þráum og viljum, við erum
draumarnir lifna og meðvitund dofnar
á svæflinum hetjan brosandi sofnar
Hér neðar er mynd tekin úr húsbilnum og daginn þann uppástóð grallaraspóinn að hún væri einka þjónninn minn. Um kvöldið heyrðist sagt undan sæng “amma ef þú nennir að rétta mér vatnið ertu best” svo varð smá þögn og hún hélt áfram “Nei, það gengur ekki, þú ert það nú þegar”