Létta lundu minningarnar góðu gegnum árin
Lifna við og dafna og á meðan grána hárin
Tíminn breiðir tómarúm og trega yfir sárin
töluvert þá tekur á að brosa gegnum tárin
Hjarta og hugur í þöglu tafli takast á um völdin
hugarafl af fyrirhyggju reisir varnarskjöldinn
Rökhugsun og skynsemi reikna út lokagjöldin
ráðalaus í baráttu sem fer fram bak við tjöldin
Sorgin sára skar á líf og gróf þá gömlu drauma
skildi eftir tóma skel og manneskjuna auma
Tærar bældar tilfinningar vella upp og krauma
taumlaus örvænting að lokum veikir haldið nauma
Þau þvældust fyrir mér mánuðum saman textabrot og bútar sem allt í einu smullu saman í febrúar 2019. Þetta var hluti að fyrstu atlögu að ljóði um Eyju frænku en gekk ekki upp sem slíkt því línurnar hluppu alltaf frá mér í aðrar áttir. Svona fór svo að lokum