Í dag

Hér neðar má finna tvær útgáfur af sama texta, annar er fyrir Snúðinn minn og hinn er fyrir Rúnar Berg en báðir fyrir alla þá sem að þessum dásemdar börnum standa.

Í dag (Snúður)

Í dag, meðan sólin í skýjum sig felur
í sálinni þungi er Snúðurinn sefur
í dag vil ég gleyma og stimpla mig út
í dag mun ég kveðja sársauka og sút
í dag

Í dag vel ég daginn og gleðin er sæt
í dag lít ég til baka, ég gleðst og ég græt
Ærslin og fjörið, lífið og lætin
endalaus hamingja, gleðin og kætin
ég man

Og nú liggur hún þarna orkulaus, dofin
oftast með verki, ómótt, ósofin
Staulast um húsið, slitið hörundið marið
skelmislegt blikið í augunum farið
í dag

En þrátt fyrir allt hún er þarna ennþá
endalaust úthald og allt innanfrá
Ég fæ hana aftur ef ég held út um skeið
þá má ég gleyma því hvernig mér leið
í dag

(17. ágúst 2021 Anna Elísa)

Í dag (Rúnar Berg)

Í dag, meðan sólin í skýjum sig felur
í sálinni þungi er Rúnar Berg sefur
í dag vil ég gleyma og stimpla mig út
í dag mun ég kveðja sársauka og sút
í dag

Í dag vel ég daginn og gleðin er sæt
í dag lít ég til baka, ég gleðst og ég græt
Ærslin og fjörið, lífið og lætin
endalaus hamingja, gleðin og kætin
ég man

Og nú liggur hann þarna orkulaus, dofinn
oftast með verki, ómótt, ósofinn
Staulast um húsið, slitið hörundið marið
skelmislegt blikið í augunum farið
í dag

En þrátt fyrir allt hann er þarna ennþá
endalaust úthald og allt innanfrá
Ég fæ hann brátt aftur ef ég held út um skeið
þá má ég gleyma því hvernig mér leið
í dag

(17. ágúst 2021 Anna Elísa)

Í dag las ég færslu á facebook sem hitti mig beint í hjartastað því ég hefði svo vel getað skrifað hana sjálf og ég settist niður og skrifaði textann hér ofar. Hann er bæði um Snúðinn minn og elsku litla frænda Rúnar Berg. Bæði berjast þau hetjulega við krabbameinið hvítblæði og það er meira en tvöfalt sárt að fylgjast með þeim og fólkinu þeirra sem er fólkið mitt líka, og það er óneitanlega oft óbærilega sárt að horfa upp á sársauka, vanlíðan og endalaus pikk og pot á spítalanum, aðgerðir, svæfingar og aukaverkanirnar sem fylgja.

Færsluna á facebook sem ég vísa til skrifaði Hulda mamma Rúnars Bergs og við erum sammála um það hve mikilvægt það er að njóta barnanna sinna, njóta þess sem þau eru, þess sem einkennir þau og gerir þau þau. Einn dagur getur tekið það allt burt og skilið eftir skel, annað barn, öðruvísi en eins og Snúður segir, hún er enn hún og hún verður aldrei krabbameinið

Sjá: https://skrinid.wordpress.com/2021/07/10/eg-er-enntha-eg/

Það er samt auðvelt að gleyma því í öllu atinu og stundum er sorgin yfir því sem einu sinni var, óbærileg og sorgin vegna þess sem þau einu sinni gátu, því sem virtist svo sjálfsagt og ég held að stundum þurfum við sem að börnunum stöndum að leyfa okkur daga til að syrgja það sem var og átti að verða, leyfa okkur daga til að muna, til að gleðjast og ekki síst leyfa okkur daga til að líta fram á veginn og hlakka til þegar þau hressast þó þau verði ekki sömu börnin því reynsla af þessu tagi þroskar þau alltof fljótt og hefur óafmáanleg áhrif. Án efa verða þau bæði eitthvað frábært og dásamlegt og það er ekkert að fúlsa við.

Samt langar mig oft til að öskra og gráta, kvarta og kveina og ég ætla að leyfa mér það í takmörkuðu magni, í einrúmi því lífið er hrikalega ósanngjarnt og vont stundum. Mér þykir líka alltaf erfitt að vita hverju er best að svara þegar fólk spyr hvernig gengur því þó meðferðin gangi samkvæmt áætlun og Snúður svari lyfjunum vel þá er þetta allt annað en létt ganga, erfiðar lyfjagjafir, ótal svæfingar, eftirköst og endalausar pillur sem þarf að koma í litla kroppa sem eru svo oft hræðilega slappir. En ég ætla samt að leyfa mér að gleðjast og vera ánægð með það sem vel gengur, njóta góðu daganna, stundanna og augnablikanna og muna að þetta tekur enda. Hér er að lokum lítil saga af Snúðnum, nýkomnum af spitalanum. Amman spurði hana hvernig gekk og Snúður hnykklaði vöðvana, hallaði undir flatt og sagði “ Ég er hörkunagli!” ….eftir smá þögn og með skelmissvip bætti hún við …”en með lausa skrúfu, og svo hló hún innilega.”

Síðasta hálfa árið hefur verið mikil reynsla og þung en um leið hef ég upplifað óendanlega mikla góðvild og manngæsku og ég er orðlaus yfir góðsemi og kærleika fólks, jafnvel ókunnugra, orðlaus. Þúsund þúsund þakkir.

Líflegi, orkumikli, aldrei kyrr, hressi, dásamlegi Snúðurinn minn:

Titill ljóðsins er sóttur í söng eftir John Denver sem heitir Today en að öðru leyti ekki þýðing á þeim texta þó áhrifin séu sterk enda hefur Denver verið í miklu uppáhaldi allt mitt líf…