Drottinn gaf og drottinn tók

Drottinn gaf
og drottinn gaf
svo undurfallega
er piltinn hann gaf
Húsið og hjartað var fullt
hamingjan mætti
Grallarinn, gleðin og kætin
dálítið ærslafullt stundum
og heilmikil læti
Drottinn gaf

Drottinn tók
og drottinn tók
gleðina alla
er piltinn hann tók
Húsið og hjartað er tómt
hamingjan horfin
Grallarinn, gleðin og kætin
eftir ljúf minning
um lífið og lætin
Drottinn tók

Drottinn gaf
og drottinn tók
Drottinn minn gaf
huggun í harmi og von
eilífa elsku og líkn
Er heimurinn hrynur
bjargið sem heldur
náð sem að nægir
Drottinn gaf

(25.1.21. AE)

Guðni Pétur Guðnason (Heiðarsson) lést af slysförum í sundhöll Reykjavíkur 22. janúar 2021. Ljósmyndirnar hér neðar eru í eigu fjölskyldunnar. Elsku vinir, elsku bræður, samúð mín er ykkar og það hryggir mig að komast ekki suður í jarðarförina, að geta ekki knúsað ykkur smá eða bara séð ykkur í augliti til auglitis. Við erum með ykkur í anda og fylgjumst með streyminu…

Lítill engill fer til himna

Brotið ríður, brýtur allt og engu eirir
Bitur þögul neyðarópin engin heyrir
Sálin grætur er særðu hjörtun veina
Skil ekki hvað máttarvöldin meina
-Lítill glænýr engill flögraði til himna

Láttu ljós þitt loga Drottinn svo hann rati
Leyfðu þeim sem syrgja trúa að til sé bati
Láttu engla þína faðma hann og kyssa
Ljúflinginn sem við máttum engan veginn missa
-Engillinn litli sem flögraði upp til himna

Sorgin dregur kvalda sál í dýpið svarta
síðasta kveðjan nístir bæði huga og hjarta
þó lífið sé hrímkalt, þokukennt og frosið
þá englabarn í englaörmum brosir
-Elskaða barnið sem kvaddi og fór til himna

(AE 3. janúar 2021)

Heggur sá er hlífa skildi

Skelfing hrein í augunum og skjálfandi af ótta
skýst ég inn í herbergið og reyni að vera hljóð
Örsnögg undir sófann, enn einu sinni á flótta
Öskrin berast sífellt nær, ég lofa að vera góð

Treð fingrunum í eyrun því trylltu hljóðin æra
tæta mig í sundur og gefa engan grið
Græt hljóðlega í golluna er illu orðin særa
Gegnumvæti buxurnar þegar þögnin tekur við

Kreisti aftur augun með kviðverki sem bíta
kalda fingur sýg meðan myrkrið felur mig
Þrýsti mér að veggnum, þori ekki að líta
þau augu þar sem suma daga skrímslið felur sig

(október 2020)

Myndin tengist efninu ekki en er ein gömul og góð sem mér þykir afar vænt um. Hér er amma, fósturmamma mín, með mig í fanginu og Hadda og Stebba frændur mína Arnar- og Ingibjargarsyni. Við Haddi berum nöfn afa og ömmu, Anna og Elí, Stebbi er aldurslega í miðjunni…

Stelpurnar mínar

Er rökkvar að og vetrarregnið eldhúsgluggan þvær
raddir þeirra úr fortíðinni óma nær og nær
Þær standa þarna báðar eins og hafi gerst í gær
tuttugu árum áður, dætur mínar tvær
ó hvað ég elska þær

Stóra systir litluna í búning hefur klætt
Sýn sem getur mömmu hjartað fullkomlega brætt
Kisa klædd í barnakjól því þeim þykir það svo sætt
kompan orðinn kastali og háaloftið bær
ó, já ég elska þær

Sú stærri semur sögur um sjóræningja og sig
skapar heilu skáldverkin og svæfir fyrir mig
Sú yngri trúir hverju orði og aðdáunin tær
þær heimta að sofa saman og vilja vera tvær
Og hve ég elska þær

Eitt sinn þegar húsið mitt var grunsamlega kyrrt
læddist ég í stofuna og hleraði við dyr;
sú yngri reyndi að segja orð sem stóra systir bað
og svo hlógu þær sig máttlausar þegar henni mistókst það
og ég elskaði það

Þær stækkuðu og þroskuðust svo undur, undur fljótt
og þó var samband þeirra ætíð fagurt, aldrei ljótt
þær standa sterkar saman og eiga báðar það
vinkonu eða verndara ef eitthvað amar að
og þær elska það

Hann Hafsteinn minn

Hann Hafsteinn minn:

Seintekinn og oft misskilinn

en það er þá bara vegna þess

að fólk þekkir hann ekki.

Kurteis og ljúfur,

góðhjartaður dýravinur.

Passar vel upp a systur sina

og kann að ergja hana

eins og góðra bræðra er siður.

Gleymir sér i tölvuleik

og hrópar hátt af gleði

þegar vel gengur.

Skreppur út

til að hlaupa úr sér óþreyjuna.

Kemur inn og vill hjálpa til

Stríðinn og kann brandara

og skemmtilegar sögur.

Elskar pílukast,

sérstaklega ef hann vinnur

en fer í körfu þess á milli.

Falleg sál og gott innræti

gæfan fylgi þér

Elsku Hafsteinn minn er eitt af systrabörnum mínum sem nú eru orðin vel riflega tuttugu talsins, hún er rík þessi móðursystir. Hafsteinn mun alltaf eiga sérstakan stað í hjarta frænku sinnar, það er bara þannig… svo er hann líka svo mikið krútt, bæði þarna fyrst og ekki síður núna… Fyrstu tvær myndirnar tók ég fyrir nokuð mörgum árum en þeirri síðustu stal ég þó ég sé alveg á leiðinni að fá leyfi hjá stráksa…

Benjamín Breki

Þessi sólfagri dásemdardagur er þinn litli drengur
Þvílík fegurð sem heimurinn umvefur lítið og stórt
En þegar svo kvöldar og sólin skín ekki lengur
Englar við rúmið þitt vaki svo sofir þú rótt

Guð gefi þér ómældan kjark og úthald sem dugar
góðsemi og samhyggð með öllum sem hafa það bágt
Megi uppeldið færa þér mildan og víðsýnan huga
Magnaðan kraft til að lifa í friðsæld og sátt

Og þegar þú stækkar og eldist og ræður þér sjálfur
oftar en ekki þú veljir þér hamingjubraut
Hvort sem að lifir þú heima eða ferðast um álfur
gæfan og gleðin svo ómæld þér falli í skaut

16. mars 2019. Nafnadagur Benjamíns Breka Sigurðssonar. Kannski foreldrarnir gefi mér mynd af litla frænda til að setja hér síðar en þangað til er hér mynd af mér og pabbanum, honum Sigga mínum, frá í dag. Benjamín fékk sér lúr og létt sér fátt um finnast um gestina

… og hér eru myndir úr eins árs afmælisveislu kappans…

Á fyrirlestri í erlendri borg

Sálarlaust rannsóknarsetur
ætlað smábörnum
hannað fyrir fullorðna
Rautt ljós og dúkkan sefur
græn ljós og nú er hún vakandi
texti til útskýringar
-Ýttu á takkann!

Dúkka í réttu vögguna
-ekki á gólfinu!
með pela og sængurbleðil
Ekki, nei og hættu
í bakgrunninum
reglur, leiðbeiningar, leiðréttingar
-ekki setja dúkkuna á gólfið!

Læknistól úr bleiku plasti
penni, prik, hamar
kannski töfraproti?
-Nei, hitamælir, gerður svona!
Engn merking
engin tilgangur

Barnið undrast
sér í gegnum glansmyndina
hendir fiskafóðrinu í vegginn
gleymir dúkkunni
gleymir læknisleiknum
gleymir sér í leiknum
og sónar út hljóðin

(Í Manchester 7. 3. 2019)

9572C05F-F940-4048-AC83-DA7CF3E9A489

Snúður

Síminn minn hringdi, og símann ég tók

Í símanum Snúður og talaði um bók

Með öndina í hálsinum veður hann elg

Orðflaumur berst mér í biðu og belg

 

Mig langar svo amma að lesa alveg ein

Lesa alla stafina en mamma er sein

Veistu, pabbi er í ræktinni, svo kemur hann heim

Og ég bara bíð, og bíð eftir þeim

 

Sagan í gærkvöldi var lesin bara hálf

Ég verð bara amma að lesa hana sjálf

Það var þarna galdrandi bangsi og norn

Prinsessa í kastala og dreki með horn

 

Ég veit ekki alveg hvað gerðist eftir það

Því þá þurfti mamma að setja mig í bað

Mig langar að vita hvað varð um þennan björn

Það má bara ekki fara svona með börn

 

Komdu til mín amma ég læri það fljótt

Hittumst á skypinu og lesum fram á nótt

Á morgun þá get ég svo svo lesið alveg sjálf

og aldrei, aldrei aftur þarf sagan að vera bara hálf

Snúður er eldra barnabarnið mitt og nafna, hressilingur og einkar skemmtilegur gleðigjafi sem sjaldan er lognmolla í kringum en hún er líka hugsandi snillingur og stækkar alltof hratt

E5997690-D877-46F5-B4DE-C90E0600A8F6

Amelia Anna 9. mánaða

Setur af mikilli einbeitingu tannaför í stofuborðið

og leggur upp í leiðangur til að flækja sig í gluggatjöldum.

Kemur við í hillum og skilur eftir fingraför á sjónvarpsskjá.

Gefur ömmu blautan koss í gegnum símann

og sendir uppgerðarhósta og krókódílatár til Akureyrar.

Klemmir sig reglulega á sömu skúffunni

en lætur ekkert stöðva rannsóknina.

Amelíus, sá fyrsti, sá síðasti, sá eini,

litli einræðisherrann sem bræðir alla með brosinu sínu

Kann vel á knús og kelerí

og fær ömmu og afa til að ferðast

um landið þvert og endilangt.

Amelia getur svo margt

Ágúst 2007

Agnarögn sem varla nær út úr lófanum á pabba Tekur allan tímann í heiminum

og allt rýmið í húsinu

Horfir yfir heiminn og

hallar undir flatt

Augun eru forvitin

og hendurnar á iði

Febrúar 2008

Kann að vera feimin og sýnir það óspart Vill bara mömmu

eða pabba

Tekur fólk í sátt

af hæglæti

Sýnir tilburði til harðstjórnar

með englabros á vör

Júní 2008

Segir nei, hátt og skýrt á pólsku Æfir sig í einrúmi

til að fullkomna listina

Segir mamma og tata

og vill þjónustu strax

Hoppar um á rassinum

Með stríðnisblik í auga

Júlí 2008

Stendur upp á miðju gólfi alveg ein Gengur stundum óvart

en aldrei viljandi

Segir nei á tveimur tungum

Og fær alla til að stjana við sig

Gömul og máð ljósmynd

Hún lærði snemma að vonsku heimsins dugar ekki að gráta

Hörkuna á eigin skinni reyndi agnar lítil hnáta

Draumar hennar leyndarmál sem niðdimm nóttin felur

þeir deyja þegar dagsbirtan örygginu stelur

 

Þau eru víða börnin sem að gráta sig í svefn

Vita vel um allt það sem gæti orðið þeim um megn

Börn sem eiga bága að og líf sem engu eyrir

börn sem eiga sorg og kvöl sem engin nokkru sinni heyrir

 

Lítil strá sem lang flest standa varla fram úr hnefa

Læra snemma að búast við bæði vonbrigðum og trega

Kaldur heimur kunnuglegur þeim sem ekkert annað þekkir

Kunna að setja upp grímu og bros sem ókunnuga blekkir

Þessi var lengi í vinnslu og var lokið í febrúar 2019. Upphafið gömul svarthvít ljósmynd af stúlku í sparikjól, stillt upp við stól (og já, á einum tímapunkti voru öll þessi orð í ljóðinu). Ef vel er að gáð má sjá mikla sorg eða depurð í augum barnsins og þessi þversögn, hátíðleg uppstillingin og sorgin þvældist fyrir mér og truflaði mig töluvert um leið og talaði til mín… en hér fylgir mynd af mér og Kattý Hattý Jensen eða Kötu systir…

B4C605A0-4A5C-4952-AC2D-0B7D79C234D2

Elsku Karítas

Semur ljóð

flytur á Arnarhól

hefur upp rödd sína

fyrir hinar

 

Jörðin skalf

þegar hún fæddist

núna skjálfa

hró í skúmaskotum

 

Þorir og getur

vill og verður

færir til fjöllin

litli suðurlandsskjálftinn

Karítas er systurdóttir mín, dóttir Mörtu Kristínar og Bjarka… flutti femínisk baráttuljóð á Arnarhól á kvennadaginn 2018 og fæddist í suðurlandsskjálftanum 17. júní þarna um árið… kannski fæ ég einhverntímann mynd til að birta hér af Karítas en þangað til er hér hlekkur á frétt sem hægt er að skoða: http://www.ruv.is/frett/ljod-a-kvennafrideginum