Af því þú átt afmæli í dag

Snjórinn skýst um göturnar í feluleik
skýin fylgjast með og roðna ýmist blá og bleik
Húsin dansa og hneigja sig þegar enginn sér
Heljarinnar veislu vilja halda þér
fjórða febrúar, þú mátt trúa mér

Gulur máni grettir sig og skelli, skelli hlær
Gæist létt á gluggann þinn og glerið þvær
Feimnir fuglar syngja skrítið gleðilag
fyrir dreng sem á afmæli í dag
og það ert þú, sem átt þennan dag

Heillastjörnur hugrakkar ég sendi í þitt hús
Hetjukraft og töfrageisla til þín Mattamús
Brosið þitt og bláu augun minn á sig
bara nú ef einhver vildi faðmað þig
í agnar litla oggu smástund fyrir mig

Fjögurra ára afmælisdagur Matthíasar þann 4. febrúar.2. 2016. Mattinn þessi er barnabarn Kötu systir og Valla.

Ásrún Vala

Horfir hugsandi á heiminn

Hjartahrein og stundum dreymin

Spyrjandi og dregur seiminn

Stundin ljúfa, hún er þín

Gefðu henni framtíð bjarta

Veröld mín

 

Augun bláu sjá og heyra

Eflaus greina og skilja meira

Fyrir þann sem ljær því eyra

Fagur eðalsteinninn skín

Gefðu henni framtíð bjarta

Veröld mín

 

Dagurinn í bólið skríður

Draumaheimur ljúfur bíður 

Sofðu værast yndisfríðust

Svefnin ræður, birtan dvín

Gefðu henni framtíð bjarta 

Veröld mín

1. maí 2017 á fermingardegi litlu frænku, systurdóttur minnar, dóttir Hermínu og Kristjáns. Myndina tók Arnar og hér er hún birt með leyfi foreldranna. Gullfalleg stúlka og þarna held ég hún sé einmitt nýbúin að syngja fyrir okkur gestina sína

68C53EDE-FA03-40E3-B688-9C23762219B3

Alexander Reynir

Í sumarfríi …

Lítill pjakkur

en bara lítill í augum stóra fólksins

dettur á milli þúfna

hróp og köll berast í kyrrðinni

Uppgötvar náttúrulögmálin 

aleinn og sjálfur

þyngdaraflið, vatnið, moldin, sólin

fuglar, ber, steinar 

og sveppir sem ekki má borða

 

Ofurhuginn

fer í hættuför yfir gamla brú

styður föður sinn til öryggis

tyllir sér á hæsta steininn

Finnur mosa og undrast

Hví? Hvernig? Hvers vegna?

Stekkur af stað 

áður en flóknar útskýringar fullorðna fólksins 

ná að eyðileggja leyndardóminn

Þarf engin svör

valhoppar af stað í nýtt ævintýri

Lítinn haus ber við bakkann

sól gyllir ljósa lokka

og blikar skelmislega á bláu auga

Þiggur sólarvörn hjá mömmu sinni

af umburðalyndi

 

Dettur í ána og bjargar lífi litilla fiska

Gleðin sullar og drullumallar

Forvitnin eltir kindur

út um mó til að taka af þeim ljósmynd

Tapar kapphlaupinu við lömbin en gleymir strax

Syngur Bullutröll, einn til að æfa sig

Lífsgleðin veður ána með mömmu

öskrar og er að deyja

en skellir sér strax út í aftur

óskar þess að hann geti synt í kafi

og hendir sér í grasið til að þorna

brosandi og glaður, frændi minn

Alexander Reynir

Þessi elska er langt frá því að vera lítill núna en þarna vorum við í sumarfrí saman austur á héraði með foreldrum hans, Láru Soffíu systir minni og Tryggva hennar… Hér er mynd af okkur saman í lítilli sveitakirkju við fermingu stóra bróður. Neðar eru svo myndir sem Alexander á sjálfur, birtar með leyfi

8BAC739B-3B18-4D6F-B1A5-2E4D43BA09C8

Í viðjum ævintýranna

Þegar dagurinn heimleiðis drattast á kvöldin

dágóða stundu er rökkrið við völdin

Við heiðina hinkrar nóttin um stund

hljóðnar í huga og hæg verður lund

 

Það er einmitt þarna sem töfrarnir felast

þarna sem sögur og ævintýr gerast

Ég veit vel að þess er ei lengi að bíða

að snúðurinn skríði undir sængina mína

 

Á svæflinum spenntur snúðurinn iðar

og ferð okkar samstundis áleiðs miðar

Fúsar við ferðumst um sögunnar lönd

ferð yfir hafið, að fjarlægri strönd

 

Þar gerst undur og kraftverk mestu

enginn er minnstur og engin er bestur

Heimur og hallir sem eigum við tvær

horfinn á morgun er veröld frá í gær

 

Við þorum, við getum, við orkum, við gerum

Allt sem við þráum og viljum, við erum

draumarnir lifna og meðvitund dofnar

á svæflinum hetjan brosandi sofnar

Hér neðar er mynd tekin úr húsbilnum og daginn þann uppástóð grallaraspóinn að hún væri einka þjónninn minn. Um kvöldið heyrðist sagt undan sæng “amma ef þú nennir að rétta mér vatnið ertu best” svo varð smá þögn og hún hélt áfram “Nei, það gengur ekki, þú ert það nú þegar”

E1D18998-9A2B-43F9-95E4-F27815BE25AF

Snældan mín

Ekkert er í heiminum dýrmætara né betra

eða yljar meira mínu ömmu hjarta

Lítill ljúfur rúmlega þriggja vetra

lallar inn í húsið mitt með brosið sitt bjarta

 

Halló amma, hér er ég komin

hrópar glaður, ertu heima?

Ég er svangur, viltu baka, er til kaka?

Mig var að dreyma, hvar er afi, er til safi?

Bíður mér faðminn sinn

-ég er besti strákurinn þinn

 

Betri gestur býðst í heiminum tæpast

bæði við elskum bara að vera saman 

spjalla um lífið, dunda um stund eða slæpast

Stríða hvort öðru, hlæja og hafa gaman 

11.9.2017 um Joel Arnar minn

A58B1497-1C19-4DAE-AB4B-0EB2DA488987

Heim

Enn annar ráðgjafi, heldur að ég hafi

ekki heyrt þetta allt

en ég er hérna ein og mig langar svo heim

Sofna á nýjum stað, veit ekki númer hvað

þá dreymir mig heim, þá er ég ekki ein

 

Alein og einmana, hrædd bæði og máttvana

ráðvilt og týnd

Skelfingin líka hér, vonleysið fylgir mér

sendið mig heim, ég tilheyri þeim

Ég vil fara heim, sendið mig heim

 

Hér er ég södd og hrein, samt miklu meira ein

sendu mig heim

Þó þar bíði rifrildi, hávaði, ofstopi

og mér sé oft kalt, hungruð og ein

Þá er það mitt heim og ég vil fara heim

 

En þau halda öll að heima verði verra en hér

og hvað með það, alveg hreint sama er mér

Ég veit samt betur núna en að trúa á neitt

hvernig svo sem allt fer, þá verð ég alltaf ein

jafnvel þó ég fari heim (sendu mig heim)

… Ég get ráðið við það, sendu mig heim

(13.3 2017)

Stúfur minn

Hún er dóttir móður sinnar, hún er sterk

hefur kjark bæði og þor, kemur hlutum í verk

Getur bognað um stund en stendur svo keik

reiknar dæmið til enda, finnur út næsta leik

 

Hún er dóttir föður síns, hún er klár

hefur dúnmjúka áferð en styrk á við stál

hún er ljúf, hún er blîð, hefur bráðskarpan hug

bíður álagið af sér af einurð og dug

 

Veganesti að heiman var vandað og hollt

virkar í gegnum erfitt og gott

Hún veit hvað er mikilvægt, þekkir það flest

hefur verkfærin öll sem að koma henni best

 

Þess vegna þori ég að sleppa hennar hönd

þess vegna læt ég áhyggjur leið bæði og lönd

því get ég sofið þegar erfitt hún á

því ég veit hún hringir ef hjálp vill hún fá

Frumburðurinn á þennan texta, ekkert meira um það að segja nema mamman var stolt af því hvernig hún tæklaði lífsins ólgusjó. Hún er auðvitað á samfélagsmiðlum með sína list, kennslu ofl. Sandra Rebekka (og haldið þið ekki að hún sé orðin ÖnnuogArnarsdóttir og ég skildi allt í einu hve miklu það skiptir að eiga börnin sín opinberlega, eitthvað sem er ekki sjálfsagt fyrir mæður)

F227C874-1A67-4EB3-85D0-A7FF5912BEF3

Sumarbúðir

Hlátrasköll og hávaði

haugdrullug og skælbrosandi börn

Sandkastalar, stíflur og sundsprettir 

sem bera nafn með rentu

Frostköld mjólk og súkkulaðikaka,

strumpaskyr og bláir fingur ráðskonunnar

bera glæpnum vitni

Kvöldvökur, söngur og furðuverur

fjallganga í sólinni og steinar 

sem stinga í berar iljar

Á morgun förum við heim

Börnin okkar

Þau fæðast bæði varnarlaus og fjarskalega smá
falast eftir umhyggju og treysta okkur á
Hreiðra um sig í hjarta og sál og búa sér þar ból
Hvert og eitt í hendur okkar Drottinn sjálfur fól

Við fáum þau að láni elsku vina mín
verndum þau og elskum meðan hjarta okkar slær
Það elskar engin meir en móðir börnin sín
og engin ást nær dýpra né er eins tær

Við gleðjumst þegar gæfan reynist þeim í vil
grátum þó í einrúmi ef finna þau til
berjumst þegar boðaföllin brjóta þeim á
biðjum þegar enga aðra færa leið má sjá

Það nístir inn að beini að missa barnið sitt
hjartað grætur blóði og sálin missir máttinn
en mundu að þú sérð hann aftur yndið mitt
þú kysstir bara góða nótt fyrir háttinn (7.7)

Ég páraði þetta á blað á leiðinni suður á jarðarför ungrar manneskju, elskað barn vina okkar og fjölskyldu, manneskju sem ég fékk þá gæfu að kynnast þegar hún dvaldi hjá okkur um vetrarskeið nokkru fyrr. Mamma hans elskulegust sendi mér nokkrar myndir til að hafa hér fyrir okkur öll að njóta. Fimm árum síðar uppgötva ég að nafnið hann Snorra kom hvergi fram í þessari færslu og bæti ég hér með úr því. Snorri Sigtryggsson  fæddist þann 9. desember 1983 og lést mánudaginn 29. júní 2015.

 

https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1559689/
https://www.visir.is/g/2015150709127

Joel Arnar

Ljúfi litli Joel minn svo brosmildur og blíður

læddi sér svo auðveldega í ömmuhjartað inn

Klappar mér á kinnina og blauta kossa býður

Ég stelst í heimsókn til að knúsa ömmu strákinn minn 

 

Á heiminn horfir íhugull með björtum augum bláum

hjartakær og dýrmætur með dásamlega sál

Heimsins von og hamingja í lófum falin smáum

hjalar til mín skrafhreyfinn og skilur engla mál

 

Krafturinn og kyngin mig setur alveg hljóða

kraftaverkið pakkað í agnarsmáan mann

hugsa sér að veröldin hafi slíkt að bjóða

hugsa sér að hvergi finnist annar eins og hann

Hér fáið þið að kynnast yngra barnabarninu ( f. 2014) en hann stækkar og stækkar. Líkur afa með tækni og tækjadellu og mikill bílaáhugamaður. Verklaginn dugnaðarforkur og kemur hlutunum í verk

6B3FC84A-61E1-4ACA-B228-A7B9E398F2F9