Síminn minn hringdi, og símann ég tók
Í símanum Snúður og talaði um bók
Með öndina í hálsinum veður hann elg
Orðflaumur berst mér í biðu og belg
Mig langar svo amma að lesa alveg ein
Lesa alla stafina en mamma er sein
Veistu, pabbi er í ræktinni, svo kemur hann heim
Og ég bara bíð, og bíð eftir þeim
Sagan í gærkvöldi var lesin bara hálf
Ég verð bara amma að lesa hana sjálf
Það var þarna galdrandi bangsi og norn
Prinsessa í kastala og dreki með horn
Ég veit ekki alveg hvað gerðist eftir það
Því þá þurfti mamma að setja mig í bað
Mig langar að vita hvað varð um þennan björn
Það má bara ekki fara svona með börn
Komdu til mín amma ég læri það fljótt
Hittumst á skypinu og lesum fram á nótt
Á morgun þá get ég svo svo lesið alveg sjálf
og aldrei, aldrei aftur þarf sagan að vera bara hálf
Snúður er eldra barnabarnið mitt og nafna, hressilingur og einkar skemmtilegur gleðigjafi sem sjaldan er lognmolla í kringum en hún er líka hugsandi snillingur og stækkar alltof hratt

Amelia Anna 9. mánaða
Setur af mikilli einbeitingu tannaför í stofuborðið
og leggur upp í leiðangur til að flækja sig í gluggatjöldum.
Kemur við í hillum og skilur eftir fingraför á sjónvarpsskjá.
Gefur ömmu blautan koss í gegnum símann
og sendir uppgerðarhósta og krókódílatár til Akureyrar.
Klemmir sig reglulega á sömu skúffunni
en lætur ekkert stöðva rannsóknina.
Amelíus, sá fyrsti, sá síðasti, sá eini,
litli einræðisherrann sem bræðir alla með brosinu sínu
Kann vel á knús og kelerí
og fær ömmu og afa til að ferðast
um landið þvert og endilangt.
Amelia getur svo margt
Ágúst 2007
Agnarögn sem varla nær út úr lófanum á pabba Tekur allan tímann í heiminum
og allt rýmið í húsinu
Horfir yfir heiminn og
hallar undir flatt
Augun eru forvitin
og hendurnar á iði
Febrúar 2008
Kann að vera feimin og sýnir það óspart Vill bara mömmu
eða pabba
Tekur fólk í sátt
af hæglæti
Sýnir tilburði til harðstjórnar
með englabros á vör
Júní 2008
Segir nei, hátt og skýrt á pólsku Æfir sig í einrúmi
til að fullkomna listina
Segir mamma og tata
og vill þjónustu strax
Hoppar um á rassinum
Með stríðnisblik í auga
Júlí 2008
Stendur upp á miðju gólfi alveg ein Gengur stundum óvart
en aldrei viljandi
Segir nei á tveimur tungum
Og fær alla til að stjana við sig