Drottinn gaf og drottinn tók

Drottinn gaf
og drottinn gaf
svo undurfallega
er piltinn hann gaf
Húsið og hjartað var fullt
hamingjan mætti
Grallarinn, gleðin og kætin
dálítið ærslafullt stundum
og heilmikil læti
Drottinn gaf

Drottinn tók
og drottinn tók
gleðina alla
er piltinn hann tók
Húsið og hjartað er tómt
hamingjan horfin
Grallarinn, gleðin og kætin
eftir ljúf minning
um lífið og lætin
Drottinn tók

Drottinn gaf
og drottinn tók
Drottinn minn gaf
huggun í harmi og von
eilífa elsku og líkn
Er heimurinn hrynur
bjargið sem heldur
náð sem að nægir
Drottinn gaf

(25.1.21. AE)

Guðni Pétur Guðnason (Heiðarsson) lést af slysförum í sundhöll Reykjavíkur 22. janúar 2021. Ljósmyndirnar hér neðar eru í eigu fjölskyldunnar. Elsku vinir, elsku bræður, samúð mín er ykkar og það hryggir mig að komast ekki suður í jarðarförina, að geta ekki knúsað ykkur smá eða bara séð ykkur í augliti til auglitis. Við erum með ykkur í anda og fylgjumst með streyminu…

Stelpurnar mínar

Er rökkvar að og vetrarregnið eldhúsgluggan þvær
raddir þeirra úr fortíðinni óma nær og nær
Þær standa þarna báðar eins og hafi gerst í gær
tuttugu árum áður, dætur mínar tvær
ó hvað ég elska þær

Stóra systir litluna í búning hefur klætt
Sýn sem getur mömmu hjartað fullkomlega brætt
Kisa klædd í barnakjól því þeim þykir það svo sætt
kompan orðinn kastali og háaloftið bær
ó, já ég elska þær

Sú stærri semur sögur um sjóræningja og sig
skapar heilu skáldverkin og svæfir fyrir mig
Sú yngri trúir hverju orði og aðdáunin tær
þær heimta að sofa saman og vilja vera tvær
Og hve ég elska þær

Eitt sinn þegar húsið mitt var grunsamlega kyrrt
læddist ég í stofuna og hleraði við dyr;
sú yngri reyndi að segja orð sem stóra systir bað
og svo hlógu þær sig máttlausar þegar henni mistókst það
og ég elskaði það

Þær stækkuðu og þroskuðust svo undur, undur fljótt
og þó var samband þeirra ætíð fagurt, aldrei ljótt
þær standa sterkar saman og eiga báðar það
vinkonu eða verndara ef eitthvað amar að
og þær elska það

Snúður

Síminn minn hringdi, og símann ég tók

Í símanum Snúður og talaði um bók

Með öndina í hálsinum veður hann elg

Orðflaumur berst mér í biðu og belg

 

Mig langar svo amma að lesa alveg ein

Lesa alla stafina en mamma er sein

Veistu, pabbi er í ræktinni, svo kemur hann heim

Og ég bara bíð, og bíð eftir þeim

 

Sagan í gærkvöldi var lesin bara hálf

Ég verð bara amma að lesa hana sjálf

Það var þarna galdrandi bangsi og norn

Prinsessa í kastala og dreki með horn

 

Ég veit ekki alveg hvað gerðist eftir það

Því þá þurfti mamma að setja mig í bað

Mig langar að vita hvað varð um þennan björn

Það má bara ekki fara svona með börn

 

Komdu til mín amma ég læri það fljótt

Hittumst á skypinu og lesum fram á nótt

Á morgun þá get ég svo svo lesið alveg sjálf

og aldrei, aldrei aftur þarf sagan að vera bara hálf

Snúður er eldra barnabarnið mitt og nafna, hressilingur og einkar skemmtilegur gleðigjafi sem sjaldan er lognmolla í kringum en hún er líka hugsandi snillingur og stækkar alltof hratt

E5997690-D877-46F5-B4DE-C90E0600A8F6

Amelia Anna 9. mánaða

Setur af mikilli einbeitingu tannaför í stofuborðið

og leggur upp í leiðangur til að flækja sig í gluggatjöldum.

Kemur við í hillum og skilur eftir fingraför á sjónvarpsskjá.

Gefur ömmu blautan koss í gegnum símann

og sendir uppgerðarhósta og krókódílatár til Akureyrar.

Klemmir sig reglulega á sömu skúffunni

en lætur ekkert stöðva rannsóknina.

Amelíus, sá fyrsti, sá síðasti, sá eini,

litli einræðisherrann sem bræðir alla með brosinu sínu

Kann vel á knús og kelerí

og fær ömmu og afa til að ferðast

um landið þvert og endilangt.

Amelia getur svo margt

Ágúst 2007

Agnarögn sem varla nær út úr lófanum á pabba Tekur allan tímann í heiminum

og allt rýmið í húsinu

Horfir yfir heiminn og

hallar undir flatt

Augun eru forvitin

og hendurnar á iði

Febrúar 2008

Kann að vera feimin og sýnir það óspart Vill bara mömmu

eða pabba

Tekur fólk í sátt

af hæglæti

Sýnir tilburði til harðstjórnar

með englabros á vör

Júní 2008

Segir nei, hátt og skýrt á pólsku Æfir sig í einrúmi

til að fullkomna listina

Segir mamma og tata

og vill þjónustu strax

Hoppar um á rassinum

Með stríðnisblik í auga

Júlí 2008

Stendur upp á miðju gólfi alveg ein Gengur stundum óvart

en aldrei viljandi

Segir nei á tveimur tungum

Og fær alla til að stjana við sig

Aldrei ein

Ein á göngu

Kallinn horfinn 

á bak við linsuna

tekur mynd

 

Ein á barnum

Félagskapurinn horfinn

inn í ipadinn

teiknar mynd

 

Ein í stofunni

Nödinn horfinn

inn í film noir

týndur á fimmta áratugnum

 

Ein í bílnum

bílstjórinn horfinn

inn í hugarheim

langt i burtu

 

Ein, en alltaf

með félagskap

heima og heiman

og því aldrei ein

Á afmæli Arnars 16.11. 2018. Smá hnýtt í karlinn þarna en allt í góðu en ef ykkur vantar sönnunargöng fylgir hér dæmi af nokkuð dæmigerðri gönguferð:

960320AE-C3D9-4C4B-AFED-F465247DE21C.jpeg

Elsku Karítas

Semur ljóð

flytur á Arnarhól

hefur upp rödd sína

fyrir hinar

 

Jörðin skalf

þegar hún fæddist

núna skjálfa

hró í skúmaskotum

 

Þorir og getur

vill og verður

færir til fjöllin

litli suðurlandsskjálftinn

Karítas er systurdóttir mín, dóttir Mörtu Kristínar og Bjarka… flutti femínisk baráttuljóð á Arnarhól á kvennadaginn 2018 og fæddist í suðurlandsskjálftanum 17. júní þarna um árið… kannski fæ ég einhverntímann mynd til að birta hér af Karítas en þangað til er hér hlekkur á frétt sem hægt er að skoða: http://www.ruv.is/frett/ljod-a-kvennafrideginum

Af því þú átt afmæli í dag

Snjórinn skýst um göturnar í feluleik
skýin fylgjast með og roðna ýmist blá og bleik
Húsin dansa og hneigja sig þegar enginn sér
Heljarinnar veislu vilja halda þér
fjórða febrúar, þú mátt trúa mér

Gulur máni grettir sig og skelli, skelli hlær
Gæist létt á gluggann þinn og glerið þvær
Feimnir fuglar syngja skrítið gleðilag
fyrir dreng sem á afmæli í dag
og það ert þú, sem átt þennan dag

Heillastjörnur hugrakkar ég sendi í þitt hús
Hetjukraft og töfrageisla til þín Mattamús
Brosið þitt og bláu augun minn á sig
bara nú ef einhver vildi faðmað þig
í agnar litla oggu smástund fyrir mig

Fjögurra ára afmælisdagur Matthíasar þann 4. febrúar.2. 2016. Mattinn þessi er barnabarn Kötu systir og Valla.

Júlísól

Hvernig má það vera, já, hvernig er það hægt?

Hún hafi bros sem getur kaldann pólarísinn brætt?

Blik í bláum augum sem sýna fagra sál

Bjarta rödd sem sungið getur engla og manna mál

 

Með höfuðið í lagi og heiðarleg alveg í gegn

Horfir fram á veginn og ekkert er henni um megn

Dýrmæt bæði og dugleg, hjartahrein og sterk

Dálítið mikið á ferðinni stundum og kemur hlutum í verk

 

Segir skondnar sögur og hlær af hjartans list

Stekkur svo af stað eins og hún hafi ef einhverju misst

Gallhörð bæði og dúnmjúk, á skilið mesta hól

Gæti nokkuð í veröldinni jafnast á við þig Júlísól?

Þann 8. maí 2017 á afmælisdegi elsku Júlíönu minnar sem aðrir kalla Júlí en mér fyrirgefst að kalla Júllu byggt á gamalli sögu… dásemdar manneskja sem hún er

C192E0C6-7791-4F52-932B-4024F1BC0D4F

 

Ásrún Vala

Horfir hugsandi á heiminn

Hjartahrein og stundum dreymin

Spyrjandi og dregur seiminn

Stundin ljúfa, hún er þín

Gefðu henni framtíð bjarta

Veröld mín

 

Augun bláu sjá og heyra

Eflaus greina og skilja meira

Fyrir þann sem ljær því eyra

Fagur eðalsteinninn skín

Gefðu henni framtíð bjarta

Veröld mín

 

Dagurinn í bólið skríður

Draumaheimur ljúfur bíður 

Sofðu værast yndisfríðust

Svefnin ræður, birtan dvín

Gefðu henni framtíð bjarta 

Veröld mín

1. maí 2017 á fermingardegi litlu frænku, systurdóttur minnar, dóttir Hermínu og Kristjáns. Myndina tók Arnar og hér er hún birt með leyfi foreldranna. Gullfalleg stúlka og þarna held ég hún sé einmitt nýbúin að syngja fyrir okkur gestina sína

68C53EDE-FA03-40E3-B688-9C23762219B3

Alexander Reynir

Í sumarfríi …

Lítill pjakkur

en bara lítill í augum stóra fólksins

dettur á milli þúfna

hróp og köll berast í kyrrðinni

Uppgötvar náttúrulögmálin 

aleinn og sjálfur

þyngdaraflið, vatnið, moldin, sólin

fuglar, ber, steinar 

og sveppir sem ekki má borða

 

Ofurhuginn

fer í hættuför yfir gamla brú

styður föður sinn til öryggis

tyllir sér á hæsta steininn

Finnur mosa og undrast

Hví? Hvernig? Hvers vegna?

Stekkur af stað 

áður en flóknar útskýringar fullorðna fólksins 

ná að eyðileggja leyndardóminn

Þarf engin svör

valhoppar af stað í nýtt ævintýri

Lítinn haus ber við bakkann

sól gyllir ljósa lokka

og blikar skelmislega á bláu auga

Þiggur sólarvörn hjá mömmu sinni

af umburðalyndi

 

Dettur í ána og bjargar lífi litilla fiska

Gleðin sullar og drullumallar

Forvitnin eltir kindur

út um mó til að taka af þeim ljósmynd

Tapar kapphlaupinu við lömbin en gleymir strax

Syngur Bullutröll, einn til að æfa sig

Lífsgleðin veður ána með mömmu

öskrar og er að deyja

en skellir sér strax út í aftur

óskar þess að hann geti synt í kafi

og hendir sér í grasið til að þorna

brosandi og glaður, frændi minn

Alexander Reynir

Þessi elska er langt frá því að vera lítill núna en þarna vorum við í sumarfrí saman austur á héraði með foreldrum hans, Láru Soffíu systir minni og Tryggva hennar… Hér er mynd af okkur saman í lítilli sveitakirkju við fermingu stóra bróður. Neðar eru svo myndir sem Alexander á sjálfur, birtar með leyfi

8BAC739B-3B18-4D6F-B1A5-2E4D43BA09C8

Í viðjum ævintýranna

Þegar dagurinn heimleiðis drattast á kvöldin

dágóða stundu er rökkrið við völdin

Við heiðina hinkrar nóttin um stund

hljóðnar í huga og hæg verður lund

 

Það er einmitt þarna sem töfrarnir felast

þarna sem sögur og ævintýr gerast

Ég veit vel að þess er ei lengi að bíða

að snúðurinn skríði undir sængina mína

 

Á svæflinum spenntur snúðurinn iðar

og ferð okkar samstundis áleiðs miðar

Fúsar við ferðumst um sögunnar lönd

ferð yfir hafið, að fjarlægri strönd

 

Þar gerst undur og kraftverk mestu

enginn er minnstur og engin er bestur

Heimur og hallir sem eigum við tvær

horfinn á morgun er veröld frá í gær

 

Við þorum, við getum, við orkum, við gerum

Allt sem við þráum og viljum, við erum

draumarnir lifna og meðvitund dofnar

á svæflinum hetjan brosandi sofnar

Hér neðar er mynd tekin úr húsbilnum og daginn þann uppástóð grallaraspóinn að hún væri einka þjónninn minn. Um kvöldið heyrðist sagt undan sæng “amma ef þú nennir að rétta mér vatnið ertu best” svo varð smá þögn og hún hélt áfram “Nei, það gengur ekki, þú ert það nú þegar”

E1D18998-9A2B-43F9-95E4-F27815BE25AF