Aðventan

Fjórar helgar fram að jólanótt

Feikna stuttar, líða allt of fljótt

Bras og bjástur fyllir daginn minn

Bjartar stjörnur skreyta himininn 

 

Þrjár ljúfar vikur sem að þjóta hjá

með frekar þéttskipaða stundaskrá

Vinafundir vekja yl í sál

Vetrarfegurð talar hjartans mál

 

Tvær tærar óskir beint frá hjartastað

til vina settar niður á lítið blað

Ósk um hamingju og heilög jól

ofar öllu skín skær vetrarsól

 

Ein er aðventan og hún er hér

Alltaf látlaus, eins og vera ber

Gefur gleði þegar dimmir að

Glæðir jólaósk í hjartastað

(8.12.2017) Myndina tók Arnar við Hólavatn, framarlega  í Eyjafirði5F8EAE41-ED86-469B-A7D6-DC55B64949DE.jpeg

Fallegur morgun í október

Fjöllin í vetrarham og

súlurnar hvítklæddar sperra sig

framan í skærbláan himinn

Laufið logar í litadýrð 

 

Spegilsléttur Pollurinn

saknar skemmtiferðaskipanna lítið

Síðustu laufin dansa kát 

fyrir utan gluggann minn

 

Innflytjandi á litlum bát

rennir fyrir fiski 

á meðan íslendingur 

kaupir innflutt kjöt

Í októbet 2018

Alexander Reynir

Í sumarfríi …

Lítill pjakkur

en bara lítill í augum stóra fólksins

dettur á milli þúfna

hróp og köll berast í kyrrðinni

Uppgötvar náttúrulögmálin 

aleinn og sjálfur

þyngdaraflið, vatnið, moldin, sólin

fuglar, ber, steinar 

og sveppir sem ekki má borða

 

Ofurhuginn

fer í hættuför yfir gamla brú

styður föður sinn til öryggis

tyllir sér á hæsta steininn

Finnur mosa og undrast

Hví? Hvernig? Hvers vegna?

Stekkur af stað 

áður en flóknar útskýringar fullorðna fólksins 

ná að eyðileggja leyndardóminn

Þarf engin svör

valhoppar af stað í nýtt ævintýri

Lítinn haus ber við bakkann

sól gyllir ljósa lokka

og blikar skelmislega á bláu auga

Þiggur sólarvörn hjá mömmu sinni

af umburðalyndi

 

Dettur í ána og bjargar lífi litilla fiska

Gleðin sullar og drullumallar

Forvitnin eltir kindur

út um mó til að taka af þeim ljósmynd

Tapar kapphlaupinu við lömbin en gleymir strax

Syngur Bullutröll, einn til að æfa sig

Lífsgleðin veður ána með mömmu

öskrar og er að deyja

en skellir sér strax út í aftur

óskar þess að hann geti synt í kafi

og hendir sér í grasið til að þorna

brosandi og glaður, frændi minn

Alexander Reynir

Þessi elska er langt frá því að vera lítill núna en þarna vorum við í sumarfrí saman austur á héraði með foreldrum hans, Láru Soffíu systir minni og Tryggva hennar… Hér er mynd af okkur saman í lítilli sveitakirkju við fermingu stóra bróður. Neðar eru svo myndir sem Alexander á sjálfur, birtar með leyfi

8BAC739B-3B18-4D6F-B1A5-2E4D43BA09C8

Við ysta haf

Út við hið ysta haf

Þar sem himininn teygir sig óralangt inn í eilífðina og fjarskinn, svo undur blár, dansar í ljósaskiptunum

Út við hið ysta haf

Svæfir haustið sumarið og breiðir yfir það gullið teppi á meðan aldan raular vögguvísur samdar í fyrndinni

Út við hið ysta haf

Verða mannanna verk lítilfjörleg og skilin milli sannleikans og hismisins verða að óravíddum sem engin kemst yfir nema fuglinn fljúgandi

Út við hið ysta haf

(17.9.2017 AE)

Hafey Viktoría

 

Enginn hefur skoðað bæ nema að hann hafi notið leiðsagnar barns

Þið skoðið sögufrægar byggingar

þar sem búa serstakir hundar

eða önnur áhugaverð dýr

Bent er á hús með skrítnum strompi

og gamlan bílskúr sem á að rífa

 

Gengið er varlega hjá garði draugahús

með næstum örugglega engum draugum

Fetaðir hættulegir stígar sem hrinur úr

gengið hjá kirkjugarði með hóflegri virðingu

skotist um bratta atíga

og bent á hús sem brann

af hæðarbrún

 

Kannast hvorki við KB banka né ráðhúsið

en bendir á gamla og nýja skolann sinn,

sundlaugina og tjaldstæðið

sem var troðfullt í gær en tómt í dag

Missir áhugann á leiðsögninni

Ætti ég að sofa í tjaldinu í nótt?

Habbalabban mín er dóttir Guðrúnar Óskar systir minnar og Hallgríms… Við Arnar fengum þann heiður að koma að fermingarmyndatökunni hennar og leyfi sýnishorni að fljóta með og svo einni af okkur tveimur saman…

Hafey – á fermingardaginn:
Spegilmyndin þín

Fyrir framan spegil,
falleg stúlka speglar sig.
Hemur hrokkna lokka,
tíminn leikur ögn á mig.
Myndin fölnar, breytist,
minningarnar sýna sig.
-Í rökkurmóðu sé ég þig.
Lukkutröll með úfið hár,
ég kyssti burtu lítil sár,
þerraði þín þyngstu tár.

Hún sér unga stúlku,
ég sé lítið stelpuskinn.
Hún horfir fram á veginn
en ég lít í huga minn.
Hún á vonir stórar
Hver er mesti draumurinn?
Felur innsta vilja sinn.
Hún er falleg, hún er fín.
Hún er litla stúlkan mín,
Veistu að framtíðin er þín?

Hugrökk og hnarreist
haltu stefnu þinni vel.
jákvæð, vongóð
Veittu öðrum skjól í él
Ætíð og alltaf
þig í hendur guðs ég fel.
Bjarta framtíð Hafey mín.
Bjarta framtíð Hafey mín.

… og mér sýnist á öllu að stelpan spjari sig bærilega