Vikan framundan

Með hjartað í buxunum hugsa ég fram á veginn
huglaus og þorrinn allur máttur og megin
Vona það besta, veit ekki alveg hvað bíður
Vikna ef hugsa um tímann sem líður og líður

Herði upp hugann og bretti upp ermar og hugsa
Hel#%#% verkefnin koma og ekki má slugsa
Konan er með þetta, kann bæði getur og klárar
kann ekki tæknina við það að leggja upp árar

Hún gefst ekki upp, né guggnar á hverju sem dynur
Hún veit hvað hún syngur meðan síþreytta sáltetrið stynur
Hún kann þetta vel og klárar þau verk sem að bíða
Hvernig sem fer verða vikurnar fljótar að líða

Upphaflega gert fyrir Ölfu 27.5. 2022 þegar hún bað um heppilega stjörnuspá. Þá var seinni hluti af línu tvö í síðasta erindinu svona: (og Baldvin ræfillinn stynur)

Drottinn gaf og drottinn tók

Drottinn gaf
og drottinn gaf
svo undurfallega
er piltinn hann gaf
Húsið og hjartað var fullt
hamingjan mætti
Grallarinn, gleðin og kætin
dálítið ærslafullt stundum
og heilmikil læti
Drottinn gaf

Drottinn tók
og drottinn tók
gleðina alla
er piltinn hann tók
Húsið og hjartað er tómt
hamingjan horfin
Grallarinn, gleðin og kætin
eftir ljúf minning
um lífið og lætin
Drottinn tók

Drottinn gaf
og drottinn tók
Drottinn minn gaf
huggun í harmi og von
eilífa elsku og líkn
Er heimurinn hrynur
bjargið sem heldur
náð sem að nægir
Drottinn gaf

(25.1.21. AE)

Guðni Pétur Guðnason (Heiðarsson) lést af slysförum í sundhöll Reykjavíkur 22. janúar 2021. Ljósmyndirnar hér neðar eru í eigu fjölskyldunnar. Elsku vinir, elsku bræður, samúð mín er ykkar og það hryggir mig að komast ekki suður í jarðarförina, að geta ekki knúsað ykkur smá eða bara séð ykkur í augliti til auglitis. Við erum með ykkur í anda og fylgjumst með streyminu…

Bæn

Lag: Eric clapton/Holy mother

Ó Guð ég bið til þín,
þú ert eina vonin mín.
Nóttin geymir leyndarmál,
felur sársaukann í minni sál.

Ó ég þarfnast hjálpar nú
og ég veit að eina von mín ert þú.
Viltu sýna mér færa leið,
þerra tárin mín.

Ó Drottinn sál mín hrópar á þig,
reiðin magnast og brennir mig.
Sendu frið sem fyllir hjarta mitt,
rekur vonleysið burt.

Ég get ei meir,
get ei meir,
get ei meir, ó Drottinn.
Ég get ei meir,
get ei meir,
get ei meir, ó Guð.

Ég stari út í dimma nótt,
tárin þorna og allt er hljótt.
Reiðin hverfur fyrir mildri hönd,
loksins finn ég hugarró.

Drottinn Guð ég vil þakka þér
fyrir friðinn sem þú færir mér.
Líf mitt hefur öðlast nýja vídd
með þér í kvöld.

Nóttin geymir leyndarmál
felur hamingjuna í minni sál.
Nú ég veit hvert ég leita á
með öll mín mál,
öll mín verk,
-til þín.

Ég lofa

Brúðkaup (þýð) og bráðum finn ég nauðsynlegar uppl.

Ég gæti aldrei lofað þér
af eigin ramleik því
að ást mín til þín verði
alla ævi fersk og ný
og þó ég vilji gjarnan
sigra heiminn fyrir þig
þá væru orð sem standa eilíf
of mikið fyrir mig

En vegna Guðs sem elskar okkur
bæði þúsundfalt
þá skal ég alltaf elska þig
svo miklu meira en allt
og vegna hans þá veit ég
nú að orð mín verða sönn
og loforð þessa brúðkaups
munu standast tímans tönn

Nú stend ég hér við altarið
við hliðina á þér
og engin veit hvað framtíðin
í skauti sínu ber
það eina sem við höfum tryggt
er dagurinn í dag
og Drottinn Jesú Kristur
sem mun gæta að okkar hag.

…ástin í hjarta mér
er meira en bara mín
hún breitist ei, bregst mér ei
og núna er hún þín

Áramót

Á morgun byrjar glænýtt ár og gömul loforð skríða úr felum
Áramótin herja á feisbúkk eins og sníkjudýr á sterum
En nýjársdagur er fjarlægur þó klukkan markvisst tifi
og best að njóta andartaksins í botn á meðan að ég lifi

Það breytist svo sem ekki margt þó klukkan verði tólf
og þú hamist við að skúra sálartetrið bæði í hólf og gólf
Gættu þess barasta góða, að sníða þér stakk eftir vexti
gefa þér sjálfri sanngjarnan séns í stað þess að berja í þína bresti

Annar janúar verður eflaust góður og helgin framundan fín
en í raun og veru er núið einasta örugga stundin þín
Það eina sem ég tel fullvíst er að ég verð áfram ég
Því fannst mér bara viðeigandi að skilja þetta eftir hér
(AE 31. desember 2019)

Leynt og ljóst

Létta lundu minningarnar góðu gegnum árin

Lifna við og dafna og á meðan grána hárin

Tíminn breiðir tómarúm og trega yfir sárin

töluvert þá tekur á að brosa gegnum tárin

 

Hjarta og hugur í þöglu tafli takast á um völdin

hugarafl af fyrirhyggju reisir varnarskjöldinn

Rökhugsun og skynsemi reikna út lokagjöldin

ráðalaus í baráttu sem fer fram bak við tjöldin

 

Sorgin sára skar á líf og gróf þá gömlu drauma

skildi eftir tóma skel og manneskjuna auma

Tærar bældar tilfinningar vella upp og krauma

taumlaus örvænting að lokum veikir haldið nauma

Þau þvældust fyrir mér mánuðum saman textabrot og bútar sem allt í einu smullu saman í febrúar 2019. Þetta var hluti að fyrstu atlögu að ljóði um Eyju frænku en gekk ekki upp sem slíkt því línurnar hluppu alltaf frá mér í aðrar áttir. Svona fór svo að lokum

Ei má sköpum renna

Drekkja mér dimmu öldurnar sem kaffæra og deyða

draga mig niður óveður sem merja bæði og og meiða

Kvelja kroppinn heljarfrost sem nísta inn að beini

Kolsvart myrkur felur ógn sem verður mér að meini

og þegar lognið loksins lægir öldur bæði og vind

Ligg í valnum örmagna, heyrnarlaus og blind

 

Hljóma raddir í tóminu sem hóta mér og hæða

hopa ekki undan fyrr en gömlu sárin blæða

“Ekkert ert og aldrei neitt”, hvísla grimmir vargar

“Enginn myndi nokkru sinni koma þér til bjargar”

Er upp er staðið leynt og ljóst að ei má sköpum renna

Í heljareldi von og draumar brenna

Þetta var einn af þessum dögum það það tók allt sem ég átti að brosa með gleði í augunum… það hendir í lífinu…og svo birtir aftur

Svona eftir á að hyggja

Sjáir þú sólargeisla stíga léttan dans við rykið

Stilltu tónlistina hátt og syngdu um framtíð bjarta

dansaðu hömlulaus og af öllu hjarta

Þú veist kannski ekki hvað það gladdi mig mikið

að dansa í sólinni rétt eins og rykið

 

Ef mætir þú barni í margmenni miklu og látum

máttu ekki láta stundir sem slíkar fram hjá þér fara 

reyndu að stoppa og njóta þess bara

Svo missir þú ekki af svörum við lífsins dýpstu gátum

börnin geta gefið (þér kærkomið) hlé frá lífsins látum

 

Og þegar þú heyrir mávana garga eða lóuna syngja

þá gleymdu því snöggvast að lífið er stundum á brattann

en slepptu þvi elskan að mála á veggina skrattan

láttu ekki lítifjörlegar þrautir þér þyngja

Og umfram allt gleymdu aldrei að dansa og syngja

(19.6. 2016)5E735E74-6581-4F6B-95CD-EDC9450A5583

Vargurinn

Ég dæmdi sjálfa mig svo grunlaus í harða fangavist

Óska þess af öllu hjarta að við hefðum aldrei hist

Vítisvefur ofinn með orðaskrúð og hjómi

Vonskan faldi klærnar undir fölskum blíðum rómi

 

Gríman þín er geysigóð og svik þitt móðurmál

grýlukerti í hjartastað og svarthol fyrir sál

Hamingju og himnaríki lofaðir þú mér 

Hlýjuna í lifi mínu kæfðir undir ís

Allt sem dvelst í návist þinni, fölnar og frýs

Af öllu hjarta óska þess að komast burt frá þér

 

Vísvitandi, jafnt og þétt vonardraumar máðir

Vegirnir til heljar eru brosnum draumum stráðir

Með hverjum degi, jafnt og þétt lífið innra með mér dó

og vargurinn með köldu augun illyrmislega hló

(Sumarið 2018)

Minningar

Skríkjandi smástelpur

skjótast um skólaloð

Litlum leyndarmálum

ljúflega hvíslað í eyra

 

Verpa eggjum og vilja

verða læknisfrú eða 

bóndakona, búleikir

og bjástur með teyjur og tvinna

 

Snúsnú og sippað

saman undir vegg

meðan mamma segir komdu inn

að borða hafragrautinn þinn

 

Minningar margar ljúfar

máðar og nýjar

Huggun í harmi

hvíldu í friði vinkona

Kveðja til Hönnu Möggu skólasystur og vinkonu 29.5. 2018. Myndin hins vegar er af mér og Kötu systir í pössun hjá Lovísu barnapíu og hún sendi mér þessa mynd, sennilega tekið í Ásabyggðinni (11?) þó ég sé ekki viss…

5EF5917A-B022-422F-AD55-69827A03C6BB