Von fyrir alla

Von fyrir alla

Ég hef séð svo marga í leit að hamingju og ást,
fólk sem eltir stundar gaman til og frá
Ég hef séð þau gleðjast þegar marki virðist náð
en svo skyndilega aftur eru ein

Ég sé marga bugast þegar nóttin verður dimm
fólk sem þráir veg sem virðist fær
Þú getur veitt þeim von og svar sem ekki bregst
(þau) aldrei framar þurfi að vera ein

Von fyrir alla, von fyrir þá
Sem lifa án takmarks
seg þú þeim frá.
Hvíld fyrir þreytta
allt þeirra líf
Jesús – von fyrir menn.

Hvar lýsir ljós þitt þegar syndari í neyð
þráir frelsi fyrir dæmda sál?
Getur þú þá kveikt í augum þeirra glóð
svo (þau) aldrei framar verði ein?

Hvar finn ég ást án ástar Guðs?
Hvar finn ég ljós án birtu hans?
Hvar finna dæmdir menn annars staðar frið?
Hver getur lifað lífi án Guðs?
Hver getur glaðst án gleði hans?
Sonur Guðs við treystum á þig

Þessi texti er á plötu vinkonu minnar Júlí og mig minnir í góðum félagsskap þriggja annarra sem ég samdi

B04F35F3-2A77-473A-9014-43FA861D33DE

Ég var þar

Þessi texti kom út á disk fyrir margt löngu þegar vinkona mín Júlí (Anna Julíana Þórólfsdóttir fag út disk sinn Von fyrir alla, heiti á öðrum texta eftir undirritaða. Júlíana er bara dásamleg og frábær og stundum þjónaði ég sem nótnastatív fyrri hana þegar hún söng. Það er líklega það næsta sem ég kemst því að gera það gott í tónlistabransanum. Ómetanlegar minningar um dásamlega samveru. Ég reyndar gleymdi að mér var falinn sa heiður að vera andlegur ráðgjafi og fóðurgjafi hljómsveitarinnar Narsissa sem samanstóð að frábærum snillingum og góðum vinum. Ég á víst tecta sem þau sungu líka… en hér er textinn Ég var þar

Ég vildi að ég hefði verið þar, þegar þú gekkst hjá
ég hefði verið gatan, þar sem leið þín lá
Ég hefði létt þér gönguna, sléttað veginn þinn
í vindinum ég stryki burtu svita þinn.

En ég var þar í hverjum þyrni sem þig stakk
ég var hluti af svipuhöggum sem að rifu upp þitt bak
og í bölvi mannfjöldans sem að reiður að þér réðst,
já ég var í nöglunum sem héldu þér við tréð
Ég var þar

Ég hefði fundið þorsta þinn og mér hefði þótt það leitt
ég hefði hvíslað „Drottinn minn, ég elska þig svo heitt“
Ef ég hefði verið ský, hefði regnið verið tár,
sem hefðu laugað andlit þitt og þvegið sérhvert sár
En ég var þar…

Mig langar Drottinn til að þakka þér,
dauði þinn hann hefur bjargað mér
Og nú vil ég velja þig,
því þú gafst þig fyrir mig
En ég var þar í hverjum þyrni sem þig stakk,
ég var hluti af svipuhöggum sem að rifu upp þitt bak.
Ég var þar

Hér er albúmið og svo ein mynd af mér og Júlí minni sem á einmitt einn textann minn alveg ein og sjálf, sá heitir Júlísól

B04F35F3-2A77-473A-9014-43FA861D33DE

EB099B53-6F26-4764-B3D8-3C72D6430172

Golgata

Golgata

Þeir hrintu honum og hann datt
þeir slógu hann af hörku fast,
einn lyfti hendi, höggið reið
í andlit sonar Guðs.

Hann reisti upp höfuð, á þá leit
úr augum lýsti samúð heit,
þeir hlógu þegar blóð hans rann
hann sagði, þetta blóð rann fyrir þig.

Og þegar háðið heitast brann
í höfuð stungu þyrnar hann,
og spörkunum hann tók á mót
í kærleik sonur Guðs.

Einn reiddist, svipuhöggið reið
á bak Guðs sonar, meir og meir,
er holdið gaf sig blóðið rann
þá sagði hann, þetta blóð rann fyrir þig.

Þeir neyddu krossinn á hans bak
í sárin stungust tréflísar,
hann staulaðist upp hæðina
og gafst upp, sonur Guðs.

Hann reyndi að standa en aftur datt
fólkið hló og hæddi hann,
í rykið saklaust blóðið rann
hann sagði, mér blæðir vegna þín.

Þeir negldu gegnum hold og bein
frá honum heyrðist aldrei vein,
þó krossinn væri reistur upp
þá þagði sonur Guðs.

Sársaukinn hann nísti og sveið
eftir dauða sínum einn hann beið,
er niður krossinn blóðið rann
hann hvíslar, þetta blóð er vegna þín.

Og veistu þú sem hlustar nú
að meiri ást er hvergi til,
en sú sem fannst á Golgata
er kvaldist sonur Guðs.

Hann sagði, fyrirgef þeim Guð
svo dó hann fyrir þig og mig,
á krossi blæddi syni Guðs
og ég veit að þetta gerði hann fyrir mig.

Ég veit að þetta blóð rann fyrir mig,
ég veit að þetta blóð rann fyrir þig.
Það læknar sár
og þerrar tár,
það gefur von.
Fyrir augliti Guðs er ég hreinn,
vegna blóðsins sem rann.

febrúar 1992

 

Bæn

Lag: Eric clapton/Holy mother

Ó Guð ég bið til þín,
þú ert eina vonin mín.
Nóttin geymir leyndarmál,
felur sársaukann í minni sál.

Ó ég þarfnast hjálpar nú
og ég veit að eina von mín ert þú.
Viltu sýna mér færa leið,
þerra tárin mín.

Ó Drottinn sál mín hrópar á þig,
reiðin magnast og brennir mig.
Sendu frið sem fyllir hjarta mitt,
rekur vonleysið burt.

Ég get ei meir,
get ei meir,
get ei meir, ó Drottinn.
Ég get ei meir,
get ei meir,
get ei meir, ó Guð.

Ég stari út í dimma nótt,
tárin þorna og allt er hljótt.
Reiðin hverfur fyrir mildri hönd,
loksins finn ég hugarró.

Drottinn Guð ég vil þakka þér
fyrir friðinn sem þú færir mér.
Líf mitt hefur öðlast nýja vídd
með þér í kvöld.

Nóttin geymir leyndarmál
felur hamingjuna í minni sál.
Nú ég veit hvert ég leita á
með öll mín mál,
öll mín verk,
-til þín.

Bæn um frið

Það er svo margt í heimi hér
sem bæta mætti úr,
ýmis verk sem bíða þess
að byrjum ég og þú.

Við þurfum öll að taka á
og starfa nú sem eitt,
biðjum Guð um frið á jörð
þá bænin verður heyrð

Og nú við biðjum þig Guð
fyrir þeim sem að þjást,
fyrir öllum sem líða,
viltu vera hjá þeim?

Já við biðjum þig Guð
sendu þeim þína ást.
Viltu breiða þinn frið
út um gjörvallan heim ?

Það finnast víða manneskjur
sem engan eiga að,
marga vantar heimili
og fastan samastað.

En Guð vill að við munum þá
og störfum nú sem eitt,
veitum hjálp og biðjum með
þá bænin verður veitt.

Við sjáum stundum sorgartár
við sjáum stundum kvöl
og oft við sjáum hjartasár
en eigum engin svör.

En Guð vill að við berum von
til annara í neyð,
biðjum Guð um hjálp og náð,
þá bænin verður heyrgum engin svör.

En mesta kvöl og sárust eymd
á líka aðra hlið
því þannig kvaldist sonur Guðs
á krossi fyrir mig.

Hann elskar alla mennina
og vill við hjálpumst að,
munum því að biðja hann
sem valdið hefur allt.

söngtexti

Ég vil lofa

Lag: Shania Twain/Robert John Lange Texti:Anna Elísa.

Ég lofa þér, ég verð alltaf með þér
því við hlið þér get ég allt
Og ég vil lofa þér
gegnum gleði og tár, hamingju og sorgir
Hvað sem henda mun
elska ég þig af öllu mínu hjarta

Ég vil lofa að elska ætíð þig
mæti öllu með þig mér við hlið
Alltaf saman hvernig sem fer
því ég lofa þér

Ég vil lofa og muna það vel
framtíð mína í hendur þér fel
þú munt ætíð gæta mín vel
því þú lofar mér.

Ég gef þér líf mitt allt og veit svo vel
að ekkert illt mun henda mig ef ég er með þér
Með þér mun ég standa hvern storm
mitt líf er þú ég veit það nú

Ég vil lofa og við það ég stend
alla æfi elska ég þig
Og þín vegna hver fórn yrði smá
Því ég lofa þér

Þú gefur lífi mínu birtu og yl
þú ert bæna minna svar og þig ég einan vil
Saman tvö við þörfnumst einskis meir

mitt líf ert þú ég veit það nú
Ég vil lofa og við það ég stend
alla æfi elska ég þig
Og þín vegna hver fórn yrði smá
því ég lofa

Þig ég elska og við það ég stend
því ég lofa þér

Agape

Lag: Mary Applegate, Gunther Mende, Heidi Stern,Wolfgang Detmann

Hljóðlátari en blærinn,
Dýrmætari en gull,
velkomnari en allt annað
er nærvera þín.
Það er ekkert hér í heimi
sem jafnast á við þig,
fyrir sumu þarf að berjast
og ég mun berjast fyrir þig.

Því þú ert minn Guð,
ég trúi á þig
og saman til eilífðar
verðum Guð, þú og ég.

Ég segi þér frá öllu,
hlusta á svörin þín,
og alltaf ef ég þarfnast þín
kemur þú til mín.
og Agape er orðið
sem að lýsir þér,
ást án allra skilyrða,
það er ást sem getur allt.

Því þú ert minn Guð,
ég trúi á þig,
og saman til eilífðar
verðum Guð, þú og ég.

Í öllu og alltaf
áttu einn mína von,
í gegnum allt lífið,
bæði í gleði og sorg
mun ég treysta á þig.

Og þeir dagar munu koma
sem draga úr mér kjark,
já þó ég muni gefast upp
þú reisir mig við.

því þú ert minn Guð
ég trúi á þig
og saman til eilífðar
verðum Guð, þú og ég.
Í öllu og alltaf,
áttu einn mína von,
í gegnum allt lífið, bæði í gleði og sorg
mun ég treysta á þig.(3x)

Í gegnum allt lífið,
bæði í gleði og sorg
mun ég treysta á þig.